Umsagnir viðskiptavina
Hér birtast nokkrar frásagnir frá viðskiptavinum Urtasmiðjunnar. Vörurnar eru fáanlegar í netversluninni, hér á vefnum okkar og hjá ýmsum söluaðilum um land allt.
Græðiolían fyrir þurrk, sviða og kláða í húð
Sæl vert þú Gígja Kj. Kvam, ég kann þér bestu þakkir fyrir Græðiolíuna þína. Ég hafði verið illa haldinn af sviða undir höndum og í nára. Ég hafði leitað úrlausna mjög víða í tíu ár bæði hjá læknum og öðrum – enn ekkert virkaði. En olían þín breytti öllu til betri vegar.
Græðismyrslið okkar er bæði fyrir fólk og dýr
Langar að segja frá reynslu minni af Græðismyrslinu frá Urtasmiðjunni. Þannig er að ég á 3ja ára dverg schnauzer rakka sem veiktist í maí sl. fékk þá slæma sýkingu í eyru og augu. Ég fór með hann til dýralækna og í stuttu máli þá var allt reynt. Sýklalyf, sterar, smyrl í augu, dropar í eyru aftur og aftur. Svona gekk þetta í um tvo mánuði. Hundurinn var orðinn þannig að hann þoldi enga birtu og leið verulega illa. Táragöngin í augum stífluðust og reynt var að opna þau en vegna mikillar bólgu var það ekki hægt. Eftir tveggja mánaða baráttu við þetta þá var eiginlega ekkert í stöðunni með lífsgæði hundsins í huga en að láta svæfa hann. Þá hafði Gígja samband við mig og bauð mér að prófa Græðismyrslið, ég þáði það með þökkum því við vildum allt gera til þess að bæta líf hundsins og komast hjá því að láta svæfa hann. Ég notaði Græðismyrslið í augun á honum tvisvar á dag og setti líka í eyrun og í nasirnar á honum. Það var eins og kraftaverk hefði gerst því eftir 3 daga sáum við mikinn mun, hann var farinn að hlaupa um og við sáum merki þess að táragöngin væru að opnast. Eftir að hafa notað Græðismyrslið í viku þá voru allar bólgur farnar, hundurinn orðinn frískur og hefur ekki borið á neinu síðan (þetta var í lok júní sl.). Í dag blómstrar hundurinn og ber ekki á neinum veikindum og hef ég ekkert notað Græðismyrslið síðan. Ég er óendanlega þakklát Gígju að hafa bent mér á Græðismyrslið því án þess ætti ég ekki þennan yndislega hund í dag . Ég á að sjálfsögðu alltaf til Græðismyrslið því ég nota það í raun á allt. Bestu þakkir fyrir okkur kæra
Gígja, Rakel Bragadóttir og Neró
Þetta þakka ég Græðismyrslinu góða
Vil byrja á að þakka þér duglega kona fyrir albestu íslensku náttúruvörurnar sem ég hef notað flestar með góðum árangri. Sérstaklega Græðismyrslið sem gerði litlu ömmustelpunni minni svo gott þegar hún um tveggja ára aldur fékk yfir sig sjóðandi tevatn og fékk 3ja stig bruna á brjóst og handlegg. Fljótlega var Græðismyrslið borið á hana og í dag sést bara smá ör eftir mesta brunann á handleggnum, hún er rauðhærð og með mjög ljósan húðlit og engin litaskipti eru á húðinni. Þetta þakka ég Græðismyrslinu góða. Rósakremið og Morgunfrúarkremið elska ég og hef notað mikið, svo undurgott og nærandi og öll önnur krem og olíur líka. Ég hef alltaf verið næm fyrir lyktinni af kremum og stundum hætt notkun þeirra eftir stutta notkun en allar vörunar frá Urtasmiðjunni Sólu eru kláruð í botn.
Þúsund þakkir fyrir mig í 20 ár.
Áslaug Þórarins
Græðismyrslið, húðnæringin og rósakremið
Ég er lengi búin að ætla að skrifa um kremin sem ég hef keypt frá ykkur. Ég hef notað Græðismyrslið á þurra húð með mjög góðum árangri. Uppáhaldskremið mitt er Húðnæringin ég á alltaf eina túpu af henni. Hún virkar vel á varir og öll varasár. Eins virkar hún vel á þurrkbletti í húðinni. Ég var með slæma þurrkbletti á olnbogunum en þeir eru nú löngu farnir. Ég er eins og labbandi auglýsing með þetta krem og er alltaf að leyfa fólki að prufa það. Þetta er undrakrem. Slökunarolían er líka mjög góð fyrir nudd. Eins nota ég Rósakremið mikið sem rakakrem, mér finnst gott hvað það fer fljótt inn í húðina og maður finnur hvernig það nærir húðina vel. Ég er mjög ánægð með allar þær vörur sem ég hef prófað frá ykkur og óska þér til hamingju með þetta framtak og þakka kærlega fyrir mig.
Hildur Halldóra
Hafnarfjörður
Fjallagrasakrem í Víkurprjóni
Ég var á ferð í Vík í Mýrdal fyrir nokkru síðan og hafði gleymt dagkreminu mínu, nema hvað ég fer inn í Víkurprjón til að kaupa sokka og rekst þá á þetta líka dásamlega dagkrem, Fjallagrasakrem, frá ykkur, þar sem ég er með afar þurra húð og exem þá er þetta það besta sem ég hef fengið, húrra fyrir ykkur.
P.S. Gleymdi að kaupa sokkana.
Jórunn Guðmundsóttir
Reykjavík
Silki-andlitsolían
Þannig er að ég er búin að eiga í miklum vandræðum með húðina í andliti og á brjósti. Húðin er mjög oft rauðflekkótt og mjög þurr,flagnar og myndast rauð hringlótt sár. Ég er yfirleitt verri á veturna. Ég hef prófað allar hugsanlegar snyrtvörur, maska, krem, olíur, júgursmyrsl, brjóstakrem, olívuolíu, krem frá grasakonum, breyta matarræði, breyta um þvottaefni, en ekkert lagast alveg, stundum er ég ágæt í nokkra daga en þetta er margar vikur að gróa.
Síðan var það fyrir um hálfum mánuði að ég bar mig upp við vinkonu mína og ég var alveg hræðilega slæm, svo slæm að ég var farin að ganga niðurlút að hún bauðst til að lána mér þessa Silki andlitsolíu frá ykkur og sárin gréru á 2 dögum.
Ég hef aldrei fengið neitt þessu líkt, og nota ég nú þessa olíu á hverjum degi, alveg alsæl.
Kærar þakkir fyrir mig, þetta hefur breytt öllu, það er svo erfitt að þurfa að vera svona útlítandi, öll í sárum og húðflagningi í framan.
Bestu kveðjur og gangi ykkur sem allra best.
P.S. Ég notaði líka Kvennaþrennuna fyrir nokkrum árum þegar að ég átti við þráláta sveppasýkingu að etja og líkaði hún mjög vel.
Ingibjörg
Ísafirði
Græðismyrslið á brunasárin
Ég var að logsjóða og þá vildi svo slysalega til að ég missti rauðglóandi járnið á hendurnar á mér og hlaut ég slæm brunasár, sérstaklega í öðrum lófanum þar sem húðin sviðnaði af og mynduðust stór sár.
Ég bar Græðismyrslið frá Urtasmiðjunni á sárin tvisvar á dag og strax á 2. degi sá ég mun til hins betra. Þetta gréri svo dag frá degi og eftir 2 vikur var þetta að mestu gróið. Að þremur vikum liðnum var stærsta sárið einnig alveg gróið og komin ný húð á öll sárin.
Stefán Júlíusson
Breiðabóli
Fjallagrasakrem
Það er vandi að vera kona á miðjum aldri með feita húð að upplagi, þurrkinn sem bætist við með aldrinum og þar að auki með ofnæmi fyrir flestum andlitskremum sem finnast á markaðnum.
Með Fjallagrasakreminu frá Urtasmiðjunni hef ég loks fengið andlitskrem sem er náttúrulegt, gefur nægan raka en ekki of mikla fitu og vekur vellíðan í húðinni, bæði nætur og daga, sumar sem vetur.
Takk fyrir mig.
Anna Margrét
Kópavogi
Græðismyrslið græðir
Ég þurfti í skurðaðgerð og það kom sýking í skurðinn sem þurfti að búa um en ég þoldi ekki plásturinn og fékk sár undan honum. Einnig brann ég eftir geislameðferð. Ég var látin hafa áburð en hann hjálpaði ekki til við að græða sárin.
Vinkona mín lét mig hafa jurtaáburð sem hún hafði kynnst og heitir Græðismyrsl, framleitt í Urtasmiðjunni. Eftir að hafa notað Græðismyrslið í 2-3 daga var bruninn og sárið gróið.
Maður vinkonu minnar notaði smyrslið á slæmt brunasár og var það gróið eftir nokkra daga.
Nú hef ég keypt mér Græðismyrslið til að eiga ef eitthvað kemur uppá sem þarf að græða.
Guðbjört
Kópavogi
Græðismyrslið
Fyrir u.þ.b. tveimur árum keypti ég Græðismyrslið hjá Gígju í Urtasmiðjunni til að nota á spenasár á kúm ef ske kynni að jurtirnar gætu flýtt batanum. Græðismyrslið reyndist mjög vel. Það sem það hefur umfram annan áburð er að það heldur sáraskorpunni mýkri og teygjanlegir en önnur smyrsl sem ég hef reynt. Það skilar sér í minni örmyndun og svo finnur kýrin ekki jafn mikið til í sárinu, verður rólegri í mjöltum og selur betur, sem minnkar líkurnar á júgurbólgu sem oft vill verða fylgikvilli spenasára.
Við höfum borið smyrslið á tvisvar á dag við mjaltir þar til sárið er að fullu gróið. Smyrslið er drjúgt og í túbum sem eru ákaflega hentugt í þessu umhverfi.
Sif Jónsdóttir
Laxamýri
Allt fyrir húðina
Ég er löngu hætt að nota nokkuð annað á húðina mína en vörurnar frá Urtasmiðjunni, enda hafa þær reynst mér betur en allar aðrar snyrtivörur. Ég met mikils að vörurnar eru náttúrulegar, framleiddar úr jurtum úr íslenskri náttúru og lindarvatni, auk þess sem náttúruleg rotvörn er notuð. Morgunfrúarkremið hefur alltaf verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér, það heldur húðinni rakri og góðri allan daginn. Fótaáburðurinn er líka alveg ómissandi, bæði kvölds og morgna.
Ég er nýbyrjuð að nota Nuddkremið/sprortkremið eftir leikfimistímana. Það er góð tilfinning að finna hvernig spennan líður úr líkamanum og angan af jurtunum leikur um vitin.
Ég mæli líka eindregið með Vöðvaolíunni/gigtarolíunni fyrir þá sem finna fyrir sviða, stífleika eða verk í axlarvöðvum. Frábært að bera á sig fyrir svefninn. Betra en nokkurt svefnmeðal.
Rannveig Traustadóttir
Kópavogi
Gott fyrir unglingana
Þar sem ég er á 17. ári má búast við því að ég hafi átt í einhverjum vandræðum með húðina á mér eins og algengt er hjá hinum venjulega unglingi. Ég man ekki einu sinni hversu margar mismunandi tegundir krema og alls kyns húðvara ég hef prófað, en leitinni lauk svo sannarlega þegar ég kynntist vörunum frá Urtasmiðjunni.
Fjallagrasakremið hefur reynst mér rosalega vel, en það mýkir andlitshúðina og losar mig við þurrkasvæðin. Ég vil nota tækifærið til að þakka fyrir þessa dýrmætu hjálp við að halda húðinni heilbrigðri og fallegri.
Margrét Einarsdóttir
Kópavogi
Gyllinæðarhnútur
Ég fekk gyllinæðarhnút sem var nokkuð slæmt tilfelli. Hitti þá þessa frábæru konu Gígju frá Urtasmiðjunni þar sem hún var að kynna vörur Urtasmiðjunnar. Ég keypti Græðismyrslið og hugsaði að ekki sakaði að prófa áður en ég færi í einhverjar aðgerðir á spítala. Ég notaði smyrslið 2-3 svar á dag og eftir hálfan mánuð var hnúturinn horfinn. Í síðastliðinn janúar fæ ég aftur annan gyllinæðarhnút og notaði þá aftur á sama hátt Græðismyrslið góða og var hnúturinn horfinn eftir 10 daga. Ég sannfærðist um að þetta smyrsl sé alveg frábært og þá líka í öðrum tilfellum.
Margrét
Hafnarfjörður
Kvennaþrennan
Mig langar að segja ykkur mína sögu af Kvennaþrennunni. Málið er að fyrir um 10 árum síðan var ég svo gjörn á að fá sveppasýkingu (niðri) og kremin úr apótekunum voru hætt að virka. Þá var mér bent á ykkur og keypti mér kvennaþrennu. Ég fór vandlega eftir leiðbeiningunum og hef verið laus við þennann kvilla nú í 10 ár. Þannig að það er greinilegt að kvennaþrennan virkar í 10 ár. Með þökk fyrir góða og hraða þjónustu.
Margrét
Vestmannaeyjar
Gott fyrir ofnæmi
Ég hef í mörg ár leitað að kremi, sem virkar vel á hendurnar á mér, ég er með nikkelofnæmi, og vegna vinnu minnar handfjatla ég peninga daglega (mikið nikkel í þeim). Ég er búin að vera í vandræðum árum saman vegna sprungna sem alltaf mynduðust á fingurgómum og ætluðu aldrei að lokast. Ég er búin að vera dugleg að prófa öll möguleg og ómöguleg krem í gegnum tíðina og ekkert dugað.
Svo fór Blómaval hér í Keflavík að selja þessar húðvörur frá ykkur og af rælni prófaði ég Húðnæringuna og daginn eftir voru sárin lokuð á fingurgómunum á mér. Núna dugar að bera þetta á mig þegar ég finn að húðin er að þorna (áður dugði ekkert til að stoppa þetta).
Svo er önnur saga, við erum farnar að nota þetta í munnvikin á taumsárum hestum og árangurinn er frábær og verður þetta krem notað áfram í mínu hesthúsi. Ekki veit ég hvað þetta hefur umfram önnur græðandi efni sem ég hef notað, en eitthvað er það.
Langaði bara að segja þér af þessu.
Þórdís Þorvaldsdóttir
Njarðvík
Húðnæring / Augnkrem
Mig langar til að segja frá salvanum frá Urtasmiðjunni sem heitir Húðnæring/vítamínkrem og hefur hjálpað mér á frunsur sem ég á vanda til að fá. Nú síðast fekk ég óvenju slæma frunsu bæði utaná og innan á vörinni. Ég fekk áburð í apotekinu sem vann ekki á þessu og datt mér þá í hug að prófa Húðnæringuna. Ég notaði hana 2 svar á dag og fór frunsan strax að hjaðna og sárið lokaðist á 2 dögum og eftir 4-5 daga var þetta alveg horfið. Er þetta besti frunsuáburður sem ég hef prófað.
Einnig hef ég notað Húðnæringuna sem útivistarkrem á varirnar því mér hættir til að þorna á vörunum í útilofti. Áhrifin endast miklu lengur en þegar ég nota annan varasalva og finn ég ekki lengur fyrir varaþurrki.
Sigurást
Borgarnesi
Græðismyrsl á exem
Græðismyrslið er frábært krem. Dóttir mín er með slæmt barnaexem og á það til að fá sýkingu í það. Nema hvað ég kynntist Græðismyrslinu á útimarkaði á Blönduósi og ákvað að prófa það á stelpunni. Og viti menn og konur kremið virkar frábærlega. Við erum búin að reyna nokkrar tegundir sem allar eiga að vera aðalkremið en ekkert virkar og ef stelpan mín er mjög slæm þá vill svíða mikið undan sumum af þessum kremum og jafnvel koma hiti. En af græðismyrslinu ykkar þá er ekkert af þessu til staðar og það sést munur nánast strax. Reyndar er dálítið sterk lykt af kreminu sem finnst lengi af stelpunni því það þarf svo mikið að bera á hana og er það eini ókosturinn sem hægt er að finna við þetta annars frábæra krem.
Stella
Hvammstanga
[/et_pb_text][/et_pb_column][et_pb_column type=“1_3″][et_pb_blurb admin_label=“Blurb“ title=“Hefur þú sögu að segja?“ url_new_window=“off“ use_icon=“on“ font_icon=“%%151%%“ icon_color=“#929374″ use_circle=“off“ circle_color=“#929374″ use_circle_border=“off“ circle_border_color=“#929374″ icon_placement=“top“ animation=“top“ background_layout=“light“ text_orientation=“left“ use_icon_font_size=“off“ use_border_color=“off“ border_color=“#ffffff“ border_style=“solid“]
Langar þig að deila frásögn af vörunum okkar með öðrum?
Sendu þá línu hér »